mánudagur, 23. febrúar 2009

Hrun íslenska lýðveldisins?

Íslenska lýðveldið er ekki hrunið. Og það á ekki að tala þannig.

Við eigum vissulega í efnahagslegum erfiðleikum og það eiga margir um sárt að binda í kjölfar hruns bankanna en við munum vinna okkur út úr þessum erfiðleikum á nokkrum árum. Trúlega verður staðan á næsta ári strax orðin mun skárri.

Það virðist hins vegar henta ákveðnum aðilum og þeirra málflutningi að tala á þann hátt að íslenska lýðveldið sé hrunið og stjórnarskráin okkar svo meingölluð að hana þurfi að endurskrifa frá grunni.

Lýðveldið, sjálfstæði þjóðarinnar og mannréttindi stjórnarskrárinnar eru einmitt okkar vörn og skjöldur á þessum erfiðu tímum. Þegar sú staða kemur upp að stjórnvöld taka ákvarðanir með miklum hraða og trekk í trekk er vélað um gríðarlega hagsmuni þjóðarinnar á næturfundum á þingi, lagafrumvörp t.d. lögð fram að kvöldi og samþykkt að nóttu osfrv. er plagg eins og stjórnarskráin sérstaklega mikilvægt. Það er mikilvægt vegna þess að því verður ekki breytt svo auðveldlega.

Fullyrðingar um að íslensk stjórnskipan og íslenska stjórnarskráin séu ónýt eru notaðar til þess að rökstyðja hugmyndir um stjórnlagaþing. Ég er efins um þá aðferð. Bæði finnst mér ekki tilefni til þess að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni og þær breytingar sem á henni þarf að gera er eðlilegra að Alþingi geri.

Margir þeir sem tala fyrir breytingum á stjórnarskránni nefna að efla þurfi Alþingi og hlutverk þess gagnvart framkvæmdarvaldinu en það væri nokkuð undarleg byrjun við að efla þingið að taka frá því eitt mikilvægasta hlutverk sitt, þ.e. stjórnarskrárvaldið.

Í greinargerð með frumvarpinu um stjórnlagaþing sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram segir að Alþingi hafi ekki getað gert þær breytingar á stjórnarskránni sem nauðsynlegar hafi verið. Þetta er umdeilanlegt því stjórnarskránni var breytt árið 1991 (breytingar á ákvæðum um Alþingi), 1995 (mannréttindakaflinn endurskoðaður) og 1999 (kjördæmaskipan breytt) - alls þrisvar á síðustu 18 árum. Þetta eru t.d. mun tíðari breytingar en í Danmörku þar sem stjórnarskránni var síðast breytt 1953 (tek fram að það er fullmikil hægagangur fyrir minn smekk!). En það er beinlínis æskilegt að það sé erfitt að breyta stjórnarskránni, það er hluti af tilgangi hennar. Stjórnarskráin er skjalið sem geymir grundvallarreglur þjóðarinnar og á að vera yfir það hafið að taka grundvallarbreytingum eftir því hvernig vindar blása hverju sinni.

Í greinargerðinni með frumvarpi Framsóknarmanna um stjórnlagaþing er talað um að ýmis fordæmi séu fyrir því að endurskrifa stjórnarskrá þjóða frá grunni og er til dæmis vísað í reynslu A-Evrópuþjóða sem endurskrifuðu stjórnarskrár sínar eftir hrun kommúnismans.

Hvernig menn fá það út að aðstæður okkar núna séu sambærilegar við aðstæður þessara þjóða er óskiljanlegt og gerir eiginlega lítið úr þeim hörmunugum sem þær upplifðu. Þjóðir A-Evrópu voru að losna undan áratugalangri kúgun og ofbeldi og þjóðfélagsskipan sem hafði verið neytt upp á þær og í reynd aldrei verið í höndum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa þessara þjóða að móta sína eigin stjórnarskrá. Það höfum við hins vegar gert og þar að auki gert á henni ýmsar breytingar og betrumbætur. Þingið hefur það í hendi sér að gera slíkar breytingar og það væri til þess fallið að veikja þingið og áhrif þess að þetta mikilvægasta hlutverk þess væri frá því tekið.

3 ummæli:

Mastro Titta sagði...

Það er rétt hjá þér að það á að vera erfitt að breyta stjórnarkrá. Það er rangt að það sé erfitt að breyta núverandi stjórnarskrá. Það er iðulega gert þannig að stjórnarskránni er breytt þegar alþingiskosningar liggja fyrir hvorteðer og svo staðfest af nýju þingi. Þær nýlegu stjórnarskrárbreytingar sem þú nefnir hafa allar farið þennan farveg án þess að stjórnarskrárgjafinn (þjóðin) hafi fengið tækifæri til að gefa álit sitt á þeim. Þess í stað hefur umræða um breytingarnar kafnað í venjulegu kosningaþrasi um tískumál líðandi stundar. Því er það mikilvægt að þessi mál séu tekið úr höndum atvinnustjórnmálamanna og færð milliliðalaust til þjóðarinnar á ný. Hitt fyrirkomulagið er bara einhver misskilningur.

Árni sagði...

Sæll Bjarki. Já þetta er rétt hjá þér - þær breytingar sem gerðar hafa verið að undanförnu hafa ekki orðið að "kosningamáli". Það kemur ef til líka til vegna þess að unnið var vandlega að undirbúningi þeirra tillagna og ágætis sátt um þær meðal flokkanna. Til dæmis stillti enginn stjórnmálaflokkur því upp sem kosningamáli í kosningunum 1991, 1995 eða 1999 að snúa við þeim breytingum sem gerðar voru áður en þing var rofið. Núverandi ferli býður upp á þann kost, þó hann hafi ekki verið nýttur. Maður myndi samt ætla að ef meirihluti þingsins myndi knýja í gegn umdeildar breytingar sem ekki væri stuðningur við meðal þjóðarinnar að aðrir stjórnmálaflokkar myndu reyna að gera slíkar breytingar að kosningamáli.

En ég er samt sem áður sammála þér í því að það mætti breyta því hvernig stjórnarskránni er breytt, t.d. með því að kveða á um að breytingarnar fari í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu.

En þú verður að athuga að það væri ekki verið að færa þessi mál "milliliðalaust" til þjóðarinnar eins og þú orðar með því að setja á laggirnar stjórnlagaþing. Það þing myndi einmitt vera skipað ákveðnum fulltrúum og það skal enginn halda að einhvers konar pólitík og hagsmunir eigi ekki eftir að koma inn í starf stjórnlagaþingsins líka þegar fulltrúarnir þar fara að reyna að miðla málum og koma sér saman um einhverjar tillögur.

Aðalatriðið er hvort við þurfum virkilega að skrifa nýja stjórnarskrá og hvort það sé rétt að gera. Ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi ákveðnar breytingar á núverandi stjórnarskrá en ekki endurskrifa hana frá grunni og raunar er margskonar löggjöf og reglusetning sem er mun brýnna að ráðast í um þesasr mundir en að endurskrifa stjórnarskránna.

Bragi Jóhannsson sagði...

Þörf grein.

Ég tel að eina breytingin sem er æskileg frá núverandi fyrirkomulagi sé að stjórnlagaþingið taki tvo mánuði á kjörtímabili til þess að vinna með stjórnarskránna og breytingar á henni.

Ef ég treysti ekki þeim sem ég kýs fyrir stjórnarskránni þá er lítill tilgangur með því að kjósa þing.