þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Seðlabankinn og framtíðin

Það er ævintýralegt hvernig púðrinu er eytt í að ræða og rífast um allt annað en það sem skiptir máli. Nú er það Davíð Oddsson og framtíð hans sem allt snýst um. Þetta er fráleitt ástand – persóna eins manns á hvorki að valda því að menn verji óbreytt ástand né sjái brottrekstur hans sem svarið við vanda þjóðarinnar. Og það er auðvitað alveg út í hött að sjá hvernig fjölmiðlarnir magna þetta upp. Fréttamenn Stöðvar 2 eyddu heilum degi í að elta Davíð og bíl hans. Frábært framlag inn í brýna þjóðfélagsumræðu!

Fyrir liggur að gera þarf breytingar á starfsemi Seðlabankans og þær hljóta að snúa að framkvæmd peningamálastefnunnar. Stýrivextir Seðlabankans hafa ekki bitið á stórum hluta lánamarkaðarins undanfarin ár. Bankinn hefur beitt stýrivöxtunum en aðeins náð til mjög afmarkaðs hluta markaðarins.

Seðlabankastjóri, hvort sem hann er Davíð Oddsson eða einhver annar og hvort sem hann starfar með peningastefnuráði eða bankaráði, mun standa frammi fyrir sömu vandamálunum.

Undanfarin ár myndaðist hér ákveðinn vítahringur sem við náðum illa að brjótast úr. Þensla varð til þess að bankinn hækkaði stýrivexti sem olli því aftur að hið háa vaxtastig varð álitlegur fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta. Erlenda fjármagnið jók á þensluna en bankinn átti erfitt með að breyta um kúrs. Það var illmögulegt fyrir bankanna að lækka vexti í miðri þenslu en að sama skapi voru vaxtahækkanir skammgóður vermir því enn meira fjármagn streymdi inn í landið í kjölfarið.

Þetta var þó ekki orsök þess að bankakerfið hér heima fór á hliðina en þetta olli miklu ójafnvægi í okkar þjóðarbúskap. Aðalorsök bankahrunsins var sú gríðarlega áhætta og lánakeyrða útrás sem bankarnir höfðu tekið sem kom svo á daginn að þeir réðu ekki við þegar lánamarkaðir snöggkólnuðu og lánalínur voru dregnar til baka. Stuðningur Seðlabankans við bankana og hlutverk hans sem lánveitandi til þrautavara er svo önnur saga - þar er bankinn ýmist gagnrýndur fyrir að hafa ekki veitt nægilega aðstoð og jafnframt að sú aðstoð sem þó var veitt í formi lána og neyðarlána hafi tapast í afskriftum.

En svona rifrildi - þ.e. hvort bankinn hafi lánað of lítið eða of mikið, hvenær hefði átt að fara að lækka vexti aftur og hve hár gjaldeyrisvaraforðinn hefði þurft að vera eru allt saman atriði sem lítið státar að rífast um núna. Við göngum í gegnum mestu kreppu í heila öld og niðurstaðan er ljós. Það er engu að síður ekkert nema eðlilegt að gerðar séu breytingar á því kerfi sem var til staðar þegar þessar hamfarir gengu yfir. Þær breytingar verða hins vegar að skapa varanlega undirstöðu en ekki vera eingöngu til þess að friðþægja óánægjuröddum í skamman tíma.

Hvernig tökum við t.d. á því eftir nokkur ár ef hlutabréfaverð fer að hækka, fjármálafyrirtækin að eflast og fasteignaverð að stíga upp á við, svo dæmi sé tekið? Á þá að byggja á sömu bjargráðunum, þ.e stýrivöxtum Seðlabankans og íslensku krónunni en treysta á að einföld mannabreyting í forystunni muni leysa málið?

Ég hef ekki, frekar en aðrir, töfralausnina fyrir peningamálastefnu okkar til framtíðar. Við blasir að núverandi ástand gengur ekki upp. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils eða upptaka evru með inngöngu í ESB eru þeir valkostir sem helst koma til greina. Ný ríkisstjórn virðist ekki hafa áhuga á að kanna þá möguleika nánar; Samfylkingin setti umsókn um ESB-aðild á ís til vors amk. og það virðist helst vera í prívatsamtölum Steingríms Joð og Kristínar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs sem einhliða upptaka annars gjaldmiðils er til umræðu. Aðrir í ríkisstjórninni minnast varla á þetta. Í staðinn fer orkan í eltingarleik við Davíð Oddsson, bréfaskriftir og einhverja leiki í fjölmiðlum.

Þetta er ekki gæfulegt ástand!

6 ummæli:

Unknown sagði...

Hvenær ætlið þið Sjálfstæðismenn að átta ykkur á því að einhliða upptaka annars gjaldmiðils er glapræði og yrði afar mikið óheillaspor - þið gerið ákaflega lítið úr ykkur með þessari umræðu.

Tvö helstu rökin fyrir þessu eru:

1. Enginn yrði lánveitandi til þrautarvara.

2. Ríkið gæti ekki fengið lán á áhættulausum vöxtum - samafara því yrði alltaf til staðar greiðslufallsáhætta á ríkissjóði sem hefur í för með sér slæmar afleiðingar fyrir atvinnulífið - þ.e.a.s. atvinnulífið gæti ekki fúnkerað eins og best yrði á kosið.

Því fyrr sem þið sættið ykkur við þetta - því betra.

Þið eruð ekki síður að rausa um hluti sem engu máli skipta - og að er virðist fáir innan ykkar raða hafa skilning á - enda Sjálfstæðismenn upp til hópa menntaðir lögfræðingar sem ekki eru skreyttir með orðum og Nóbelsverðlaunum - eins og einhver spekingurinn innan ykkar raða orðaði það.

Unknown sagði...

Best að hafa þetta rétt svo fólk skilji það.

Að ríkið geti ekki fengið lánað á áhættulausum vöxtum er bein afleiðing þess að ríki stendur frammi fyrir greiðslufallsáhættu (e. default) - og er það þá vegna þess að það mun ekki lengur njóta þess sem kallast "Seigniorage". Þeir flétta orðinu upp sem hafa áhuga.

bjartur sagði...

Hversu margar vikur þurfið þið sjálfs´æðismenn að vera frá völdum til þess að átta ykkur á þeirri staðreynd að meginorsök allra vandamála islensks samfélags er af ykkar völdum. Veruleikafyrrringin er í hámarki hjá þessari valdastofnun sem settu heilt þjóðfélag á hausinn og 300,000 manns í átthagafjötra Seigi ekki meir .

bjartur sagði...

Afneitun ykkar sjálfs´´æðismanna er hjákátlegt . Hver seldi bankana til einkavina fyrir slikk . Og ekki bara seldi fyrir lítið heldur skyldi reksturinn njóta ótarkmaðrar ríkisábyrgðar .Einkavinirnir slógu endalaus lán og komu peningunum undan í skjól . Landsbankinn stundar peningaþvætti fyrir rússa mafíur og fleira mætti telja. Er að undra að almenningur hefur fengið nóg af ykkar plottum . Ég hef alla vegana fengið nóg .

Unknown sagði...

Hugsum fram á veginn, hvað þarf að gera, heimili eiga ekki fyrir nausynjum og ríkið ekki heldur. Skera niður á öllum sviðum t.d. öll framlög til tómstundastarfs 18 ára og eldri, t.d. skák, listastarf, rithöfundarlaun og allan annan óþarfa. Bestu og mestu menningarafurðir íslendinga urðu til í styrkjalausu umhverfi, þ.e. íslendingasögurnar því er þetta óþarfi. Það á eingöngu að styrkja og halda uppi starfi 18 ára og yngri það er framtíðin sem þarf að borga þennan ósóma.

Nafnlaus sagði...

Max Fay has been writing about 빅카지노 personal finance for Debt.org for the past five years. His expertise is in scholar loans, credit cards and mortgages. Max inherited a genetic predisposition to being tight together with his cash and free with monetary recommendation.