Egill Helgason segir að ég fagni því að almenningi blæði út og Jónína Ben segir í athugasemdum á síðunni hans að það skipti mig engu máli þótt bankarnir séu að gera almenning eignalausan. Þetta þykja mér nokkuð mikil viðbrögð við færslu sem bar þann hógværa titil „Ekki alsvart“ og gekk út á að að vöruskiptajöfnuður við útlönd væri orðinn jákvæður og að bankarnir hefðu skilað hagnaði.
Það er auðvitað rétt að verðbólgan er okkur erfið um þessar mundir, hún hækkar allar skuldir og þyngir róðurinn. En menn verða að setja hlutina í samhengi - við göngum nú í gegnum erfitt skeið eftir 12 ára tímabil nær samfelldrar kaupmáttaraukningar og hagvaxtar. Þetta eru tímabundnir erfiðleikar sem koma að miklum hluta til vegna aðstæðna úti í heimi, s.s mikilla hækkana á olíu- og hrávöruverði og erfiða aðstæðna á fjármála- og lánamörkuðum.
Hvað bankana varðar þá er aðalatriðið einfaldlega að uppgjör sem þessi sýna að staða þeirra er góð og þeir virðast ætla að sigla í gegnum þetta tímabil. Tal um að ríkið þurfi að bjarga bönkunum virkar undarlega á mann þegar afkoman er jafngóð og raun ber vitni. Bankarnir sýna jákvæða afkomu og hafa ekki þurft að fara út í umfangsmiklar afskriftir eins og sum fjármálafyrirtæki úti í heimi vegna undirmálslánanna. Það er mikilvægt því það yrði töluvert högg ef einhver þeirra færi á hliðina.
föstudagur, 1. ágúst 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Eða til að setja hlutina í samhengi; verðbólga verður líklegast 14%, sem þýðir að lán á íbúðum mun hækka hátt í 20% á þessu ári hjá öllum lánþegum. Þar sem Íslendingar eru skuldugastir allra þjóða, þá þýðir þetta að venjulegar fjölskyldur er að taka á sig sovna 2 miljóna hækkanir, og þeir sem spenntu bogann mest mun meira.
Það er engin tilviljun að Mest, Hans Petersen og Ræsir séu á leiðinni í ræsið.. Flugleiðir segja starfsfólkinu sínu upp, og fasteignarsalarnir eru samasem atvinnulausir vegna samdráttar á markaðinum. Ég veit að fólkið sem maður þekkir þar sem konan er flugfreyja og maðurinn fasteignarsali eru ekki í góðum málum; heldur ekki bankafólkið með tvo range rover jeppa, náðu ekki að selja gamla fyrir fallið.
Þótt að við virðumst ekki vera alveg að brotlenda, þá er almenningur löngu búinn að missa af þessum 4,5% meðalhagvexti - enda var hann knúinn áfram af mikilli lántöku sem er nú farinn að snúa upp á almenning. Útlitið fyrir almenning er verulega dökkt.. og það verður erfitt fyrir fólk að sækja launahækkanir til að mæta aukinni greiðslubyrði.
Uppgjör bankanna er komið frá fyrirtækjum og almenningi, tap í bókum félaga er að koma fram í bókum bankanna.
Er að stýra 100 manna fyrirtæki og horfur eru ekki góðar, mikilvægt er fyrir alla sem pólitíkusa í dag þ.m.t. þig að átta þig á að nú er horft til ykkar og nú er kominn tími á aðgerðir.
Ástandið er graf alvarlegt og ummæli ykkar er haldið til haga og menn munu þurfa að standa skil þeirra.
Tal um að ríkið þurfi að bjarga bönkunum? Bíddu var ekki verið að virkja Húsnæðislánasjóð einmitt í þeim tilgangi?
Eru aðeins erlend áhrif að verki eins og hér er haldið fram? Það er alveg fráleitt. Bankarnir voru gefnir siðlausum mönnum sem bjuggu til stærstu bólu Íslandssögunnar. Hún er nú sprungin - og almenningur mun borga.
Þetta sjá flestir - líka þeir sem alltaf hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn eins og sá sem hér skrifar. Dapurlegt er þegar ungir, stórefnilegir og afar klárir menn eins og Árni Helgason gerast algjörlega blindir í nafni flokkshagsmuna.
Fólkið á fáar útgönguleiðir og því verður refsingin veitt í nlæstu þingkosningum.
Skrifa ummæli