mánudagur, 22. september 2008

Kompás í kvöld

Handrukkarinn sem fjallað verður um í Kompási í kvöld hefur ákveðið að verða sér út um lögmann og fara í mál við 365-miðla vegna þess að hann telur brotið á rétti sínum til eigin myndar, sem verndaður er af stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann fór fyrst fram á lögbann við birtingunni en því var hafnað.

Ég leyfi mér reyndar að draga í efa að grundvallarhugmyndin á bak við réttindin um friðhelgi einkalífsins hafi verið sú að veita ofbeldismönnum vernd fyrir því að myndir af þeim séu birtar í sjónvarpi. En það er aftur á móti svo að fólk nýtur ákveðinnar verndar hvað þetta varðar og lögin taka til allra, hversu mikla andúð sem samfélagið kann að hafa á viðkomandi eða því sem hann hefur gert. Fjölmiðlar geta því brotið af sér ef þeir ganga of langt í myndbirtingum án samþykkis þess sem er á myndinni. Frægt dæmi um þetta er fyrirsögnin "Bubbi fallinn" sem 365-miðlar voru dæmdir fyrir í Hæstarétti í fyrra.

Aftur á móti blasir við að þegar um er að ræða grófa líkamsárás vegna handrukkunar eiga önnur sjónarmið við. Sá sem tekið er mynd af er að fremja alvarlegt brot á lögum, þó vissulega eigi eftir að dæma hann fyrir það. Það sem meira er þá er þetta lögbrot hluti af ólöglegri starfsemi, handrukkunum. Það væri raunar fróðlegt að heyra hvort lögmaðurinn muni bera ákvæðum 75. greinar stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi til að réttlæta þá iðju. En það er auðvitað ekki málefnalegt að gera mönnum upp slíkan útúrsnúning á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar fyrirfram.

Réttur fjölmiðla til þess að fjalla um mál sem þessi er sterkur og nýtur sömuleiðis verndar. Ef málið fer fyrir dómstóla verður að vega og meta þetta tvennt saman, þ.e. rétt til eigin myndar annars vegar og rétt fjölmiðla til að fjalla um málið hins vegar. Trúlega mun lögmaður hins meinta handrukkara halda því fram að Kompás hafi brotið gegn meðalhófsreglunni með því að birta andlit mannsins og nafngreina hann.

Um þetta mat var fjallað í áðurnefndum dómi í máli Bubba Morthens gegn Hér og nú. Þar segir Hæstiréttur:

„Friðhelgi einkalífs nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings."

Ofbeldi sem handrukkarar beita telst augljóslega málefna sem eiga erindi til almennings og teljast þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu. Þessir menn ganga fram og beita ofbeldi og hótunum gegn fólki þannig að réttur fjölmiðla til að fjalla um framferði þessara manna hlýtur að vera ríkur.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áttu þá við að ég megi taka upp á segulband öll samtöl mín í daglegu amstri, án þess að láta viðmælanda vita, og síðan birta í útvarpi ef einhver segir eitthvað sem kynni að varða við lög eða vera á annað borð ósæmilegt?

Þarna er verið að egna í gildru fyrir menn, og það ekki af lögreglu, heldur til að búa til sjónvarpsþátt sem selur áskriftir. Þetta er viðbjóðsleg þróun og leitt að sjá ágætan miðil eins og Deigluna taka þátt í subbuskapnum með því að rifja upp 16 ára gamalt dómsmál. Til hvers?

Nafnlaus sagði...

Þessi þáttur selur ekki áskriftir hann er í opinni dagskrá

Nafnlaus sagði...

já, einmitt, hann er framleiddur af hjartagæskunni einni. Selja áskriftir og/eða auglýsingar.