mánudagur, 29. september 2008

Réttlætanlegt risainngrip

Það hefur verið vitað lengi að endurfjármögnun bankanna myndi vera erfið þetta árið. Þar kemur til að menn höfðu spennt bogann hátt undanfarin ár og þurfa að standa í skilum núna. Á móti kemur að Glitnir hafði lýst því yfir að fjármögnun bankans út árið 2009 væri tryggð - það kom fram í sumar eftir að uppgjör fyrir annan ársfjórðung var kynnt. Eftir að fjöldagjaldþrot stærstu fjármálafyrirtækja heims riðu yfir og hamfarir á alþjóðlegum fjármálamarkaði hófust þá hafa aðstæður breyst. Bankinn lendir því skyndilega í miklum vanda og leitar til ríkisins og Seðlabankans um aðstoð.

Inngrip ríkisins í atvinnulífið eiga almennt ekki rétt á sér en í þessu tilfelli held ég að svo hafi verið. Glitnir er í öllum aðalatriðum sterkur og vel rekinn banki og vandinn snýr fyrst og fremst að endurfjármögnuninni og hinum erfiðu aðstæðum sem nú eru uppi. Hlutur ríkisins verður svo seldur þegar um hægist og það er ekki ólíklegt að verðmæti þess hlutar verði töluvert meira en kaupvirðið nú og sú áhætta sem ríkið tekur kunni að borga sig til lengri tíma litið. Með þessu er staðinn vörður um bankann og starfsemi hans, innistæður viðskiptavina bankans og hagsmuni hluthafanna, sem eru um 11 þúsund talsins samkvæmt því sem fram kemur á vef bankans. Stjórnarformaður bankans telur að hagsmunir hluthafanna séu fyrir borð bornir með þessu en það má velta því fyrir sér hvernig staðan hefði verið ef bankinn hefði farið á hliðina. Þá hefðu ansi margir setið eftir með verðlausar eignir.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa lýst sig samþykkan þessari aðgerð og að þeir hafi verið látnir vita fyrirfram. Engu að síður gagnrýna ýmsir að þingið hafi ekki tekið þetta fyrir, ég sé að ritstjóri Eyjunnar kallar það konunglegt klúður.

Staðreyndin er einfaldlega sú að ef menn ætluðu að bregðast við á annað borð varð það að gerast hratt. Átti að kalla saman þing í gær til þess að fjalla um lausafjárvandræði Glitnis? Hefðu þá umræður um þetta átt að malla fram eftir viku á meðan fyrirtækið færi í þrot? Það sjá allir að þetta gengi ekki. Staða Glitnis var þannig að það varð að bregðast við strax og ganga frá málum eins fljótt og kostur var.

Í Bandaríkjunum hefur þingið haft til umfjöllunar 700 milljarða dollara fjárveitingu til að leysa fjármálakerfið úr vanda og endaði á að fella hana núna í dag. Það er aftur á móti grundvallarmunur á þessu tvennu - Bandaríkjamennirnir eru að fjalla um almennar aðgerðir til þess að taka á vandanum á meðan ríkisstjórnin hérna heima var að bjarga einstökum banka úr vandræðum sem varð að gerast strax ef aðgerðin átti á annað borð að virka.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Æ æ Árni. Er þér ekkert illt í hugsjónunum?