fimmtudagur, 4. september 2008

Sælkerabúðin ÁTVR

Efst á vef ÁTVR er auglýsingaborði með kynningarefni fyrir búðina. Þar birtast myndir af ostum og vínberjum og svo slagorðið „Girnilegar uppskriftir og vínin sem passa“.

Á vefnum birtast líka fréttir og fyrsta fréttin núna er um að salan hafi aukist fyrstu átta mánuði ársins og að velta á sölu með áfengi sé nú um 11 milljarðar króna.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart. Þegar ríkið einokar sölu á áfengi og er í þokkabót alltaf að þróa og bæta verslanir sínar til að gera þær meira aðlaðandi og meira spennandi fyrir viðskiptavinina, þá er engin furða að sala aukist.

En eru ekki helstu rökin fyrir því að ríkið einoki áfengisverslun einmitt rök um neyslustýringu og lýðheilsu? Eitthvað á þá leið að ef ríkið sjái um áfengisverslun þá sé einhver stjórn á neyslunni? Þetta hefur verið svo í hávegum haft að hógværar breytingartillögur um að færa áfengi í matvöruverslanir eða sérverslanir hafa þótt öfgafullar og ekki náð fram að ganga.

Vandinn er bara sá að ríkið rekur þessa verslun alveg eins og fyrirtæki. Það er með sölunet út um land allt og býr til huggulegt kynningarefni fyrir vörurnar sem það selur.

Ríkisvaldið er því með annarri hendinni að halda myndarlega utan um sölu áfengis, byggja upp sölunet á landsbyggðinni og birtir frétt um söluaukningu á vef einokunarverslunarinnar. Með hinni er haldið úti lýðheilsustefnu, forvörnum og ýmis konar áróðri gegn því að fólk drekki áfengi!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er það ekki ákveðin lýðheilsustefna að hvetja fólk til að líta á áfengi sem munaðarvöru sem ætluð er til neyslu með dýrindis ostum og ávöxtum? Munaðarvöru sem á að fara vel með en ekki neyta í óhófi sem vímugjafa?

Svo skil ég ekki alveg þetta raus í þér, ertu ekki framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna? Ertu ekki í innsta koppi og í fyrirtaks aðstöðu til að koma á framfæri þessu breytingum?

kv
baldvin esra

Nafnlaus sagði...

Þrátt fyrir tal um mikilvægi frelsis einstaklingsins hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei lagt áherslu á þetta mál. Innan flokksins eru enda stækir forræðishyggjumenn á þingi. margir þeirra hafa raunar sagt að þeir muni aldrei styðja breytingu og afnema ríkiseinokunina. Hefur þú kynnt þér hvernig þingmenn flokksins studdu geggjuð lög um tóbaksvarnir sem m.a. bannna mönnum að tala um tóbak?!!!
Þetta er án vafa stjórnarskrárbrot.
Þarna fara ekki saman orð og efndir.
Það sama á t.d. einnig við um fjölmiðla. Sjálfstæðisflokkurinn hefur beinlínis unnið að því að styrkja stöðu ríkismiðla á frjálsum markaði. Nú á að kynna einhverja framsóknarbreytingu á því, bæði að halda og sleppa.
Sjálfstæðisflokkurinn er því miður flokkur mikillar forræðishyggju. Frjálsyndir menn komast ekkert áleiðis innan hans.

Árni sagði...

Baldvin - ég hlýt nú að mega "rausa" þó ég sé í flokk!

Svo er það alveg rétt hjá þér að það er ágætis lýðheilsustefna að líta á áfengi sem munaðarvöru. Spurning hvort að það megi þá ekki setja t.d. léttvín í frjálsa sölu? Það gæti fyrirtaks vara til að selja í t.d. sérverslunum eða sælkerabúðum.

Nafnlaus sagði...

Sæll aftur Árni. Takk fyrir góða pistla. Ég svaraði þér hér að ofan sem nafnlaus.
Ég tek eftir að þú nefnir í svari til Baldvins að setja megi létt vín í frjálsa sölu. Hvers vegna aðeins létt vín? Víðast hvar í Evrópu gera menn engan slíkan greinarmun á léttu og sterku víni.
Vilt þú að ríkið selji áfram sterkt áfengi? Telur þú sem talsmaður frelsis einstaklingsins að eðilegt sé að ríkið hafi áfram með höndum einkasölu á sterku áfengi? Með hvaða rökum? Hvers vegna ekki að gefa þetta allt frjálst? Er þetta ekki vara á neytendamarkaði?
Takk aftur fyrir athyglisverð skrif sem ég fylgist grannt með.
Kveðja
Gunnar

Nafnlaus sagði...

Enda er ég ekki að banna þér að rausa. Skil bara ekki hvers vegna þú ert að því. Það hlýtur að vera betra að haldi baktjaldafundi um málið og láta svo hlutina gerast. Moka út foræðishyggjunni og íhaldseminni.


Svo er áfengi selt útum allt. Önnur hver sjoppa á landsbyggðinni er með áfengissöluleyfi og flestir ef ekki allir matsölu- og kaffistaðir í þéttbýli.

Af vísu er það í dýrari kantinum. En móti kemur að við erum flest ferlega rík og höfum vel efni að skvetta í okkur þegar okkur hentar.
kveðja
baldvin esra

Nafnlaus sagði...

Er "Vínbúð" ekki löngu orðið að sérverslun eða sælkerabúð (á meðan "ÁTVR" var það ekki)? Skiptir öllu máli hver eigandinn er ef þjónustan og úrvalið eru í lagi?

Ég held að drykkjumenning Íslendinga hafi batnað mikið síðustu ár - breyttar áherslur í áfengissölu hljóta að hafa haft eitthvað að segja.

ikeshiakaffenberger sagði...

Top 9 Best Sportsbook Bonus Codes December 2021 - The King of
Top 9 Best Sportsbook Bonus Codes 카지노 December 2021 - The King of Dealer.com ✓ Updated kirill-kondrashin December 2021!