laugardagur, 31. janúar 2009

Ákvarðanirnar bíða

Nýja minnihlutastjórnin hefur tekið sér meira en viku til að koma sér saman um stjórnarsáttmála til þriggja mánaða.

Þetta þýðir að í rúmlega viku hefur orka pólitíkusanna og athygli fjölmiðlannna beinst að hráskinnaleik stjórnmálanna. Hver færi hvaða ráðuneyti, hvað stjórnlagaþing kosti, hver verður rekinn, hvort verður kosið í lok apríl eða byrjun maí osfrv.

Ekkert af þessu skiptir neinu máli varðandi það sem er framundan né hjálpar til við að koma okkur sem fyrst út úr þeim vandræðum og kreppu sem við erum í.

Viðfangsefnunum má skipta niður í nokkra flokka.

Gengið, verðbólgan og vextir

Í fyrsta lagi er gengi krónunnar, verðbólga og háir stýrivextir. Öll þessi atriði stuðla að því að ástandið í efnahagsmálum núna er og hefur verið algerlega óviðunandi. Hins vegar eru jákvæð merki í spilunum hvað þetta varðar; vöruskiptahallinn er orðinn hagstæður og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast, (þótt það sé hæfilega mikið að marka á meðan gjaldeyrishöftin eru til staðar). Að öllum líkindum mun verðbólgan fyrir febrúar verða mun lægri og stýrivextir lækka svo í kjölfarið. Þessi mál munu því þróast til betri vegar á næstu mánuðum og það mun létta töluvert á afborgunum verðtryggðra lána fyrir einstaklinga og fjölskyldur og vaxtalækkunin í kjölfarið verður mikilvæg fyrir atvinnulífið.

Bankakerfið í gang á ný

Í öðru lagi þarf að koma bankakerfinu á lappirnar á ný. Matsfyrirtækið Oliver Wyman er að yfirfara eignasafn bankanna áður en eigið fé verður sett inn í bankanna. Til stóð að þeirri vinnu yrði lokið í febrúar en samkvæmt nýjum fréttum mun því ekki ljúka fyrr en í apríl. Það eru slæmar fréttar því núverandi ástand bankanna er engan veginn nógu góð. Samofið því verkefni að koma bönkunum á lappirnar og stofna efnahagreikning þeirra er svo að marka stefnu til framtíðar um rekstrarform bankanna, þ.e. hvort koma eigi þeim í einkaeigu og hvort sameina eigi amk. tvo af bönkunum. Inn í þetta spilar svo hvernig aðkoma erlendu kröfuhafanna verður að eignarhaldi bankanna.

Gjaldmiðill og peningamálastefna

Þriðja stóra atriðið sem þarf að leysa til lengri tíma litið er framtíðarskipan gjaldmiðlamála og peningamálastefnu. Þar kemur einkum tvennt til greina; aðild að ESB eða einhliða upptaka annars gjaldmiðils, líklegast dollars sökum þess hve pólitískt viðkvæm einhliða upptöku evru væri. Báðar þessar leiðir hafa aftur á móti innbyggðan vanda. Það er alls óvíst að einhliða upptaka dollars þætti trúverðug af okkar hálfu núna – við skulum ekki vanmeta hve lítil tiltrúin á „íslenskum efnahagslausnum“ er. Þar að auki stæðist slík lausn tæplega sem varanleg framtíð í gjaldmiðlamálum. ESB-aðild hefur aftur á móti þann praktíska ágalla, fyrir utan hve pólitískt umdeild aðild er, að ferlið við að taka upp evru er afar tímafrekt – sennilega fjögur til sex ár, allt eftir því hvernig okkur gengur að uppfylla Maastricht-skilyrðin.

Af þessu eiga stjórnmálaflokkarnir og stjórnvöld að hafa áhyggjur og leggja höfuðið í bleyti. Kjördagur, stjórnlagaþing og ofsóknaræði í garð bankamanna er ekki það sem mestu skiptir í dag.
Minn óskalisti lítur svona út:
  • Höldum okkur við IMF-prógrammið, því það er besti möguleikinn til að styrkja krónuna, lækka verðbólgu og ná niður vöxtum næstu misserin
  • Komum bönkunum í einkaeigu því ákvarðanatökufælni gengur ekki sem framtíðarástand í íslensku hagkerfi – svo þarf að meta hvort það verði ekki hagstæðara að sameina allavega tvo af nýju bönkunum þremur
  • Sækjum um aðild að Evrópusambandinu og förum í aðildarviðræður og kanna kosti þess að taka einhliða upp dollar
Lágir stýrivextir og fúnkerandi bankakerfi mun gera það að verkum að atvinnulífið hefur forsendur til að fara að rétta úr kútnum á ný og atvinnuleysi gæti farið að ganga niður. Nýr gjaldmiðill verður svo ávísun á aukinn stöðugleika hér á landi.

1 ummæli:

Thorleifur Örn Arnarsson sagði...

Ferlega góður pistill hjá þér Árni. Þetta er alveg rétt í grunninn. Það þarf að kom ahér skikk á efnahagslífið. hins vegar þarf að gera það þannig að traust skapist á ferlinu, nýjum áherslum og þeim sem fengnir verða til þess að leiða hina nýju banka og stofnanir.

Til þess þarf gegnsæji, góða upplýsingagjöf, auðmýkt og staðgóa umræðu um efnahagsmál.

Útskýra þarf á rólegum og sjálfkrítískum nótum hvers vegna betra er í grunninn að búa við frjálst hagkerfi og vinna þannig góðum hugmyndum brautargengi.

Bjartsýni í bland við auðmýkt og skilning á samfélagslegum aðstæðum verða að vera aðalsmerki samskipta valdhafa við þjóðina.

Takist að gera það, þá tel ég að þjóðin muni einhenda sér á bakvið óskir þínar og þær verða að veruleika án þess að eftri standi klofið samfélag.

Bestu kv.

Þorleifur Örn