Það er gott mál að ríkisstjórnin sé farin að spá í atvinnumálum og aðhaldi í ríkisrekstri og hefur vonandi sett tilraunastarfsemi sína með kosningalöggjöf og fleira til hliðar í bili.
Vel gert hjá Steingrími að lækka dagpeninga opinberra starfsmanna í ferðalögum og alveg spurning hvort það megi ekki ganga lengra í því.
Ríkisstjórnin kynnti í gær aðgerðarpakka sem á að tryggja 4000 ársverk. Það hljómar vel og ýmsir punktarnir þarna eru góðir, t.d. aukin störf fyrir iðnaðarmenn við að sinna ýmsum viðhaldsverkefnum. Það er eðlilegt að gera þegar atvinnuleysi er mikið. Þá er það líka góð hugmynd að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna framleiðslu kvikmynda hér á landi úr 14% í 20% til þess að laða hingað til lands erlenda kvikmyndaframleiðslu, sem mun vonandi skapa störf.
Annað í þessu er þynnra og lítur frekar út fyrir að hafa verið bætt við á blaðið til þess að koma störfunum yfir fjögur þúsund. T.d. er reiknað með 1000 ársverkum í kjölfar þess að skattumhverfi nýsköpunarfyrirtækja verði „bætt“ og annað á þessum lista felur ekki beint í sér mikla atvinnusköpun, eins og að fjölga listamannamönnum á ríkislaunum. Það mun skapa 33 ársverk! Að skikka fyrirtæki til að vinna fjórðungs alls afla heima við orkar tvímælis, fyrirtækin hljóta að geta metið það hvernig þessu verði best hagað.
Svo sá ég að Steinunn Valdís Óskarsdóttir er að tala fyrir því að tekið verði upp margþrepa skattkerfi. Hún tók þó fram að það eigi alls ekki að vera eins og gamli hátekjuskatturinn því hann hafi verið farinn að leggjast á fólk með millitekjur og í frétt Morgunblaðsins um þetta kemur fram að Steinunn hafi vísað til fólks sem hafi unnið mjög mikið og haft þokkalegar tekjur á meðan það var að koma sér upp þaki yfir höfuðið.
Þessar fullyrðingar stangast á, því margþrepa skattkerfi mun einmitt bitna á þannig fólki. Því hærri sem launin eru því mun hærri verður skattprósentan. Það dregur úr hvata til vinnu og býr alls konar óheppilega þröskulda, t.d. að það verði hagstæðara að vera með 399 þúsund krónur í laun en 401 þúsund ef skattprósentan hækkar við 400 þúsund króna markið. Skattkerfið í dag er alls ekki fullkomið en einn þessi helsti kostur er að það er einfalt og laust við óþarfa flækjustig og það er þess virði að halda því þannig.
laugardagur, 7. mars 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Sæll Árni.
Ekki langar mig að byrja aðra netdeilu um skatta við þig, en vildi bara benda þér á hugsanavillu hjá þér.
Þú segir: "...að það verði hagstæðara að vera með 399 þúsund krónur í laun en 401 þúsund ef skattprósentan hækkar við 400 þúsund króna markið."
Yfirleitt er það þannig í þrepaskiptu skattkerfi að nýja skattprósentan á einungis við viðbótina yfir þrepinu. Því hefur nýja skattprósentan engin áhrif á tekjur undir þrepinu.
Það gerist því aldrei (eða ætti ekki að gerast) að það sé hagstæðara að vera með 399 þús í laun heldur en 401 þús. Hins vegar er jaðarábatinn af launum fyrir 400 þús meiri, en af launum eftir 400 þús.
Já - þetta er rétt athugað, ef kerfið yrði þannig útfært.
Þá er flækjan orðin töluverð.
Menn eru þá eina prósentu á tekjur upp að ákveðnu marki, aðra prósentu á tekjur yfir því marki og upp að einhverju öðru og svo framvegis.
Ertu sjálfur fylgjandi svona pælingum?
Almennt er ég hlynntur því að hafa skattkerfið einfalt og skilvirkt - þess vegna er ég frekar andsnúinn margþrepaskattkerfi. Hins vegar finnst mér alveg koma til greina að þeir sem eru með mjög háar tekjur greiði hærra hlutfall umfram ákveðna upphæð. Það þyrft samt að skoða betur með tilliti til t.d. hvað slíkt myndi bæta við í ríkiskassann.
Já, vandinn við þetta er sá að þetta þarf að vera býsna rífleg aukning á hæstu tekjurnar til að skila ríkissjóði miklum ávinningi. Ingibjörg Sólrún orðaði það ágætlega í desember þegar hún talaði um að eftir að hátekjuskattþrep hefði verið skoðað af hálfu ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagagerðina, þá hafi komið í ljós að álagning hátekjuskatt myndi fyrst og fremst vera táknræn, þ.e. henni fylgdi engin veruleg tekjuaukning fyrir ríkissjóðs.
Svo er tekjuskalinn væntanlega að breytast mjög hratt um þessar mundir í þá veru að mikið af "hæstu tekjunum" eru að lækka býsna hratt og skattstofninn þar af leiðandi að þrengjast, svo maður reyni að sletta á fagmáli.
Og það má ekki heldur gleyma því að persónuafsláttur býr til ákveðin jöfnunaráhrif í skattkerfið, þannig að af lægstu launum er minni skattbyrði en af hærri launum.
Það hefur mér þótt réttlætanlegt, þ.e. mér finnst að skattkerfið eigi ekki að vera svo einfalt að það sé bara ein prósenta og ekkert meir, eins og "hreinræktað" flatt skattkerfi myndi líta út.
Hvað finnst þér að "hæstu tekjurnar" ættu að borga mikið hærra í skatthlutfall?
Ég er svosem hvorki með neina sérstaka upphæð né prósentu í huga.
Mér finnst hins vegar alveg þess virði að skoða þessa hluti upp á nýtt (með áherslu á "skoða"). Það er t.a.m. engin tilviljun að langflest lönd í hinum vestræna heimi notast við mismunandi skattþrep fyrir misháar tekjur. Það er því ekkert hægt að slá þetta af borðinu sísvona.
Ég geri mér reyndar grein fyrir að hægrimenn á Íslandi munu seint fallast á breytingar í þessa átt - sama hversu góð rök maður týnir til.
Skrifa ummæli