Valgerður Bjarnadóttir lét vinna skoðanakönnun um afstöðu fólks til stjórnlagaþings og hefur kynnt niðurstöðurnar fyrir fjölmiðlum. Í fréttum hefur komið fram að mikill stuðningur sé við að halda stjórnlagaþingið - þrír fjórðu taka vel í þessa hugmynd. Orðalag spurningarinnar er hins vegar áhugavert - þar er ekki bara spurt um stjórnlagaþing eitt og sér heldur er spurningin orðuð á eftirfarandi hátt:
„Ert þú fylgjandi stjórnlagaþingi til þess að þjóðin geti sett sér nýja stjórnarskrá?“
Athyglisvert hvernig seinni hluti spurningarinnar er orðaður, þ.e. hvort fólk vilji að þjóðin setji sér nýja stjórnarskrá. Í þessu felst að þeir sem svöruðu spurningunni tóku ekki einasta afstöðu til stjórnlagaþingsins heldur líka þess hvort þjóðin eigi að setja sér stjórnarskrá.
Svona orðalag er villandi og til þess að knýja fram ákveðna niðurstöðu. Miklu eðlilegra hefði verið að spyrja um afstöðu fólks til stjórnlagaþings án frekari aukaskýringa eða meininga.
Þetta er ekki ósvipað og hugmyndir LÍÚ um hvernig eigi að framkvæma skoðanakannanir um Evrópusambandsaðild meðal Íslendinga. Að þeirra mati á spurningin að vera orðuð þannig að Íslendingar séu spurðir um hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið og þar með missa forræði yfir auðlindum sínum. Þá heyrist reyndar venjulega hljóð úr horni...
föstudagur, 13. mars 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Hvað er rangt við spurninguna? Þjóðin kýs í almennri atkvæðagreiðslu um niðurstöðu stjórnlagaþings og setur sér þannig stjórnarskrá líkt og þjóðin setti sér stjórnarskrá með almennri atkvæðagreiðslu 1944.
Mér þykir sjálfstæðismenn vera heldur betur að dæma sig úr leik í þessari umræðu með misskilningi og hugtakabrengli. Um daginn sagði formaður flokksins frá því í ræðustól á alþingi að þingið væri stjórnarskrárgjafi! Ég hef aldrei fyrr heyrt það hugtak notað svona enda vita allir sem kynna sér málið að þjóðin sjálf er stjórnarskrárgjafinn. Svona vanþekking er ykkur ekki til sóma.
Sæll Bjarki.
Þingið setur stjórnarskrána og því á orðið "stjórnarskrárgjafi" ágætlega við. Þetta er svipað að og þingið er "löggjafi" - þ.e. þingið setur lögin en þingmenn eru kjörnir af þjóðinni. Í báðum tilfellum er um að ræða fulltrúalýðræði en ekki beint lýðræði.
Þjóðin verður ekki að stjórnarskrárgjafa þótt niðurstöður stjórnlagaþings yrðu bornar undir þjóðina - hún tekur þá bara afstöðu til nýrrar stjórnarskrár, af eða á, en kemur ekki að öðru leyti með beinum hætti að því að móta orðalagið. Það gera fulltrúar á stjórnlagaþinginu, skv. frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur.
Ég er þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingar sé eðlilegt fyrirkomulag. Þess vegna er hugmyndin um að breyta því hvernig stjórnarskránni sé breytt mikilvæg breyting. Þá breytingu væri að gera núna - sú tillaga er komin fram á þingi og um hana eru raunar allir flokkar sammála.
Ef af þeirri breytingu yrði, þá væri þjóðin jafnsett varðandi aðkomu sínu gagnvart breytingum á stjórnarskránna hvort sem þær kæmu frá Alþingi eða sérstöku stjórnlagaþingi - sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin í báðum tilfellum.
Þetta er því ekki alveg rétt með farið hjá þér.
Heill og sæll
Þetta er hárrétt hjá þér. Þessi spurning er meingölluð út frá öllum aðferðafræðilegum forsendum. Eins og þú bendir á þá er í raun spurt um tvö atriði í spurningunni. Við vitum í raun ekki hvort fólk vill nýja stjórnaskrá eða hvort það vill kjósa stjórnlagaþing. Einnig er skekkja í spurningunni þar sem aðeins önnur afstaðan sem fólk getur haft til málsins nefnd. Rétt hefði verið að spyrja t.d:
Ert þú fylgjandi eða andvíg( ur ) því að þjóðin kjósi sérstakt stjórnlagaþing.
Svo er reyndar spurning með úrtakið þ.e. hversu vel endurspeglar póstlisti Plússins þjóðina. Þekki það reyndar ekki.
Bestu kveðjur, Einar Mar
Skrifa ummæli