þriðjudagur, 2. desember 2008
Gjaldeyrishöft og gott framtak Hvatar
Þetta mál var meðal annars til umræðu í Vikulokunum síðasta laugardag þar sem ég var meðal gesta, ásamt þeim Skúla Helgasyni, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, Helgu Sigrúnu Harðardóttur, þingmanni Framsóknar og Láru Hönnu Einarsdóttur, bloggara.
Það sem hefur gerst er að við erum smám saman byrjuð að fleyta krónunni á ný en það má kannski lýsa stöðu hennar þannig að ef hún fengi að fljóta alveg frjálst núna þá myndi hún sökkva til botns. Þess vegna fær hún kút og froskalappir og sundlaugargestum er bannað að busla í lauginni. Krónan er þannig sett á flot með miklum vörnum til þess að koma í veg fyrir frekara gengishrun.
Margir hafa bent á að þessi lög færi okkur marga áratugi aftur í tímann - það er að mörgu leyti rétt. Sett eru höft á færslu gjaldeyris úr landi og það skaðar okkur óhjákvæmilega út á við. Seðlabankanum eru færð mikil völd og áhrif með þessum lögum og það er mikilvægt að gegnsæi ríki varðandi ákvarðanir bankans og annarra stjórnvalda tengt þessum lögum og reglum, sérstaklega varðandi þær undanþágur sem verða veitar frá reglunum.
Mér heyrist á flestum þeim þingmönnum og öðrum sem hafa tjáð sig um þessi lög að það séu fæstir hrifnir af lagasetningunni en aftur á móti var hinn kosturinn, að láta krónuna fljóta afskiptalaust og að öllum líkindum falla mjög hratt næstu vikurnar, verri. Það hefði þýtt verulega aukningu í verðbólgu ofan á það sem fyrir er. Undirliggjandi er svo að á næstu mánuðum munum við flytja meira út en við flytjum inn þannig að krónan á að geta styrkst og höftin vonandi aðeins gilt í stuttan tíma.
Enn á ný erum við engu að síður að lenda í vandræðum vegna krónunnar og þurfum að grípa til örþrifaráða til þess að aðlaga umhverfið að krónunni. Grunntilgangurinn með peningum og gjaldmiðlum er að þeir greiði fyrir viðskiptum en það gerir krónan því miður ekki, hún gerir viðskipti hér á landi flóknari og veldur atvinnulífinu vandræðum.
Annars er þetta frábært framtak hjá Hvöt, sjálfstæðiskonum í Reykjavík, að bjóða upp á ókeypis ráðgjöf og þjónustu á næsta föstudag og laugardag.
föstudagur, 28. nóvember 2008
Hvað er í boði í Brussel?
Eitt af því sem ég hef fengið á tilfinninguna eftir að bankarnir fóru á hliðina er hve margir hafa lagt sig fram við að kynna hugmyndir og tillögur um framtíðina. Fólk í háskólasamfélaginu, atvinnulífinu og hvaðanæva að hefur lagt höfuðið í bleyti og hugmyndirnar bókstaflega streyma fram. Þjóðin lagðist í hugmyndavinnu sem sýnir að þrátt fyrir mikla reiði og óánægju vill fólk líta fram á veginn og leggja sitt að mörkum til þess að við getum komist á lappirnar aftur.
Peningamálastefnan lykilatriði
Ég er þeirrar skoðunar að nánast allar þær hugmyndir sem lagðar eru fram muni fyrr eða síðar standa frammi fyrir spurningunni um peningamálastefnuna til framtíðar. Hún er eins konar rauður þráður í gegnum þetta allt saman og varðar það umhverfi sem fyrirtæki og atvinnulíf hér á landi eiga að búa við til framtíðar. Enginn deilir um að núverandi fyrirkomulag hefur ekki gengið upp.
Eins og ég skil umræðuna núna eru einkum þrjár hugmyndir á sveimi um fyrirkomulag gjaldmiðlamála:
1) Halda í krónuna. Þessi hugmynd á sér ekki marga stuðningsmenn en þau rök sem standa á bak við þessa leið eru að þegar krónan fer á flot og réttir úr kútnum eftir einhverjar vikur og mánuði, m.a. vegna jákvæðs vöruskiptajöfnuðar og mikils útflutnings (svo ekki sé minnst á ef við finnum olíu) þá muni tiltrú manna á krónuna aukast jafnt og þétt enda risavaxnar skuldir íslensku bankanna ekki lengur að sliga þjóðarbúið.
2) Taka einhliða upp aðra mynt. Það er ekki heldur hægt að segja að margir séu á bak við þessa hugmynd en hún gengur út á að allavega til skamms tíma væri okkur betur borgið með því að skipta hreinlega út krónunni og taka einhliða upp annan gjaldmiðil, t.d. dollar, eins og dæmi eru um. Þetta er tæknilega ekki mjög erfitt og í grein í Fréttablaðinu fyrir nokkru síðan bentu tveir hagfræðingar, þeir Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson, á að þessi leið væri ekki lakari kostur en að setja krónuna á flot og eyða miklum fjármunum í að styrkja hana í kjölfarið.
3) Taka upp evru með inngöngu í ESB. Þetta er sú leið sem flestir horfa til enda yrðum við þá formlega hluti af evrópska myntsamstarfinu og fengjum stöðugan gjaldmiðil sem m.a. myndi auðvelda alla erlenda fjárfestingu hér á landi og gera okkur aðila að peningamálastefnu evrópska seðlabankans. Til þess þyrftum við að ganga í ESB og ná að uppfylla Maastricht-skilyrðin um verðlag, vexti, gengisstöðugleika og fara ekki yfir ákveðin mörk í skuldum ríkissjóðs og halla á fjárlögum. Þar að auki yrði að gera ákveðnar breytingar hér heima fyrir, t.d. með stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild osfrv.
Erlend fjárfesting og möguleikar íslenskra fyrirtækja
Vandamálið við fyrsta möguleikann, að halda íslensku krónunni, er að ofan á þann vanda sem fyrir var vegna smæðar og óstöðugleika krónunnar, sem eins smæsta gjaldmiðils í heimi, hefur hún laskast mjög verulega á atburðum síðustu vikna. Það er allra hagur að vel takist til við að koma henni á flot á næstunni og lykilatriði til að ná niður verðbólgu hér heima. En sé litið lengra fram á veginn er erfitt að sjá fyrir sér hvernig t.d. erlend fjárfesting til landsins getur komið með óbreyttum gjaldmiðli og hversu trúverðugir og aðlaðandi kostir fyrirtæki sem fjármagna sig í íslensku krónunni munu þykja á erlendum vettvangi.
Annar möguleikinn, einhliða upptaka annars gjaldmiðils, er afar óvenjuleg og sjaldgæf leið í myntmálum. Hún hefur þann stóra ókost að við hefðum ekki neina stjórn á gjaldmiðlinum, gætum t.d. ekki prentað peninga ef á þyrfti að halda. Það gerir það að verkum að tiltrú manna á bankakerfið hér heima yrði ekki mikil - íslensk stjórnvöld gætu t.d. ekki sett inn peninga í kerfið ef áhlaup yrði á bankakerfið. Það myndi sjálfkrafa grafa mjög undan trúverðugleika allrar banka- og fjármálastarfsemi hér á landi. Í raun má segja að gallinn við einhliða upptöku sé einfaldlega sá að það er enginn bakhjarl á bak við slíkt kerfi enda þyrftu stjórnvöld að kaupa erlendan gjaldeyri og setja í umferð.
Myntsamstarf ESB - meiri kostir en gallar
Þriðja leiðin - að ganga í ESB og fá þannig evru - er illskást til þess að ná því nauðsynlega markmiði að fá nýjan gjaldmiðil. Það þýðir aftur á móti að við förum inn í mjög stórt myntsvæði þar sem við þurfum að hlýta ákvörðunum um stýrivexti sem ekki taka sérstaklega mið af aðstæðum hér á landi og við gætum hæglega lent í þeirri aðstöðu að vera á skjön við hagsveifluna annars staðar í Evrópu. En aftur á móti er það orðið fullreynt að halda úti eigin stýrivöxtum hér heima - reynsla síðustu ára sýnir að þegar stýrivextir voru hækkaðir til að mæta þenslu innanlands þá laðaði sú hækkun að erlent fjármagn til landsins og í stað þess að draga úr fjármagni í umferð jókst það í reynd. Háir stýrivextir Seðlabankans voru því farnir að vera þensluvaldandi í sjálfu sér. Kostirnir af því að ganga inn í myntsamstarfið í ESB eru því klárlega meiri en gallarnir, þó þeir séu vissulega fyrir hendi.
Þurfum að sjá hvað ESB býður upp á
Til þess að fá inngöngu í þetta myntsamstarf þarf Ísland aftur á móti að ganga í ESB - hugmyndum um tvíhliða myntsamstarf var því miður hafnað af hálfu embættismanna Evrópusambandsins í sumar og haust. Við inngöngu þyrfti Ísland m.a. að gangast undir hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins og taka fullan þátt í hinum pólitíska samruna sem Evrópusambandið gengur í raun út á. Sömuleiðis yrðum við að afsala okkur umboði til að gera tvíhliða samninga við aðrar þjóðir, t.d. varðandi hlutdeild okkar í flökkustofnum í kringum Ísland og fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir. Allt eru þetta neikvæðar hliðar á inngöngu en þó stendur eftir spurningin hvort þær séu óásættanlegar? Svo þarf ekki að vera og úr því sem komið er væri ráð að sjá hver niðurstaðan úr aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði. Það er vel þekkt að slíkum samningum getur verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef niðurstaðan er ekki þjóðinni að skapi.
Þessar spurningar og vangaveltur verða væntanlega áberandi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúarlok og ekkert nema gott um það að segja. Á landsfundi eiga sæti fulltrúar sem mynda þverskurð úr samfélaginu, frá bæði landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu og frá ótal greinum atvinnulífsins, og þar verður farið í gegnum þau sjónarmið sem huga þarf að, bæði kosti og galla. Aðalatriðið við Evrópusambandið og aðild Íslands að því er hvort sú aðild gagnist þjóðinni og á þeim grundvelli þarf að nálgast þá spurningu.
mánudagur, 29. september 2008
Réttlætanlegt risainngrip
Inngrip ríkisins í atvinnulífið eiga almennt ekki rétt á sér en í þessu tilfelli held ég að svo hafi verið. Glitnir er í öllum aðalatriðum sterkur og vel rekinn banki og vandinn snýr fyrst og fremst að endurfjármögnuninni og hinum erfiðu aðstæðum sem nú eru uppi. Hlutur ríkisins verður svo seldur þegar um hægist og það er ekki ólíklegt að verðmæti þess hlutar verði töluvert meira en kaupvirðið nú og sú áhætta sem ríkið tekur kunni að borga sig til lengri tíma litið. Með þessu er staðinn vörður um bankann og starfsemi hans, innistæður viðskiptavina bankans og hagsmuni hluthafanna, sem eru um 11 þúsund talsins samkvæmt því sem fram kemur á vef bankans. Stjórnarformaður bankans telur að hagsmunir hluthafanna séu fyrir borð bornir með þessu en það má velta því fyrir sér hvernig staðan hefði verið ef bankinn hefði farið á hliðina. Þá hefðu ansi margir setið eftir með verðlausar eignir.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafa lýst sig samþykkan þessari aðgerð og að þeir hafi verið látnir vita fyrirfram. Engu að síður gagnrýna ýmsir að þingið hafi ekki tekið þetta fyrir, ég sé að ritstjóri Eyjunnar kallar það konunglegt klúður.
Staðreyndin er einfaldlega sú að ef menn ætluðu að bregðast við á annað borð varð það að gerast hratt. Átti að kalla saman þing í gær til þess að fjalla um lausafjárvandræði Glitnis? Hefðu þá umræður um þetta átt að malla fram eftir viku á meðan fyrirtækið færi í þrot? Það sjá allir að þetta gengi ekki. Staða Glitnis var þannig að það varð að bregðast við strax og ganga frá málum eins fljótt og kostur var.
Í Bandaríkjunum hefur þingið haft til umfjöllunar 700 milljarða dollara fjárveitingu til að leysa fjármálakerfið úr vanda og endaði á að fella hana núna í dag. Það er aftur á móti grundvallarmunur á þessu tvennu - Bandaríkjamennirnir eru að fjalla um almennar aðgerðir til þess að taka á vandanum á meðan ríkisstjórnin hérna heima var að bjarga einstökum banka úr vandræðum sem varð að gerast strax ef aðgerðin átti á annað borð að virka.
miðvikudagur, 24. september 2008
Virkjanir í einkarekstur
Þetta losar um verðmæti fyrir ríkið og færir fjármagn inn í landið. Þetta yrði afmarkað við að selja rekstur þeirra virkjana sem sjá stóriðju fyrir rafmagni þannig að orkusala til almennings sé undanskilin.
Ríkissjóður ætti að losa sig út úr rekstri víðar en í orkugeiranum. Íslandspóstur er augljóst dæmi um fyrirtæki í eigu ríkisins sem ætti að selja. Sömuleiðis ætti ríkið að afnema einkarétt Íslandspósts á póstdreifingu hið fyrsta í stað þess að bíða til ársins 2011, eins og til stendur.
Keflavíkurflugvöllur er annað fyrirtæki sem væri kjörið að koma í hendur einkaaðila og myndi losa mikla fjármuni.
þriðjudagur, 23. september 2008
Stækkunarstjórinn stendur undir nafni
Oli Rehn væri ekki að vinna vinnuna sína sem einn af embættismönnum sambandsins ef hann segðist vera opinn fyrir öðrum leiðum en ESB-aðild. Ákvörðun um þetta mál verður tekin á pólitískum vettvangi ekki af embættismönnum.
mánudagur, 22. september 2008
Kompás í kvöld
Ég leyfi mér reyndar að draga í efa að grundvallarhugmyndin á bak við réttindin um friðhelgi einkalífsins hafi verið sú að veita ofbeldismönnum vernd fyrir því að myndir af þeim séu birtar í sjónvarpi. En það er aftur á móti svo að fólk nýtur ákveðinnar verndar hvað þetta varðar og lögin taka til allra, hversu mikla andúð sem samfélagið kann að hafa á viðkomandi eða því sem hann hefur gert. Fjölmiðlar geta því brotið af sér ef þeir ganga of langt í myndbirtingum án samþykkis þess sem er á myndinni. Frægt dæmi um þetta er fyrirsögnin "Bubbi fallinn" sem 365-miðlar voru dæmdir fyrir í Hæstarétti í fyrra.
Aftur á móti blasir við að þegar um er að ræða grófa líkamsárás vegna handrukkunar eiga önnur sjónarmið við. Sá sem tekið er mynd af er að fremja alvarlegt brot á lögum, þó vissulega eigi eftir að dæma hann fyrir það. Það sem meira er þá er þetta lögbrot hluti af ólöglegri starfsemi, handrukkunum. Það væri raunar fróðlegt að heyra hvort lögmaðurinn muni bera ákvæðum 75. greinar stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi til að réttlæta þá iðju. En það er auðvitað ekki málefnalegt að gera mönnum upp slíkan útúrsnúning á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar fyrirfram.
Réttur fjölmiðla til þess að fjalla um mál sem þessi er sterkur og nýtur sömuleiðis verndar. Ef málið fer fyrir dómstóla verður að vega og meta þetta tvennt saman, þ.e. rétt til eigin myndar annars vegar og rétt fjölmiðla til að fjalla um málið hins vegar. Trúlega mun lögmaður hins meinta handrukkara halda því fram að Kompás hafi brotið gegn meðalhófsreglunni með því að birta andlit mannsins og nafngreina hann.
Um þetta mat var fjallað í áðurnefndum dómi í máli Bubba Morthens gegn Hér og nú. Þar segir Hæstiréttur:
„Friðhelgi einkalífs nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, skiptir grundvallarmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings."
Ofbeldi sem handrukkarar beita telst augljóslega málefna sem eiga erindi til almennings og teljast þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu. Þessir menn ganga fram og beita ofbeldi og hótunum gegn fólki þannig að réttur fjölmiðla til að fjalla um framferði þessara manna hlýtur að vera ríkur.
föstudagur, 12. september 2008
Lengi lifi kerfið
Sem sagt: Margrét Pála ætti ekki að reka fyrirtæki utan um hugmyndina sína heldur biðja kerfið um að taka hana upp!
Ömurlegt á Facebook
Sérstaklega er ósmekklegt að lesa eitt kommentið á þessari síðu. Það skrifar Pietor Solnes og segir: "Mér finnst blogg þessa manns vera frekar ógeðsleg misnotkun við málfrelsið sem við börðumst svo lengi fyrir."
Já, þessi Facebookhópur hefur eflaust barist hetjulega fyrir málfrelsinu með lýðræðisöflunum í Evrópu á 19. öldinni. Sannkallaðar hetjur.
Pietor endar færsluna á eftirfarandi orðum: "Endilega viðrið ykkar hugmyndir hér, ég er tilbúinn í aðgerðir."
Aðgerðir - hvað heldur maðurinn að hann sé?
Ég skil ekki hvað DV.is gengur til að gera sér mat úr þessu sem frétt.
þriðjudagur, 9. september 2008
Óskalög sjúklinga og Gaddafi
Ríkið hefur töluvert kaupendahlutverk nú þegar en með því að setja á fót Sjúkratryggingarstofnun verða þessi kaup framkvæmd á skipulagðari og betri hátt en hingað til. Þetta þýðir að stofnunin sér um að kaupa aðgerðir og þjónustu í heilbrigðiskerfinu og leitar að hagstæðasta kostinum, sem gæti verið hvort sem er hjá hinu opinbera eða hjá sjálfstætt starfandi aðilum.
Hugmyndin er að ná fram betri þjónustu og betri nýtingu á opinberu fé, sem mikil sátt er um að sé varið til heilbrigðismála. Væntanlega geta flestir verið sammála um að það sé jafnmikilvægt að fá eins mikið fyrir peningana og hægt er.
Ég held að þær áhyggjur sem Ungir jafnaðarmenn hafa í ályktun sinni séu ástæðulausar. Þar er því haldið fram að réttarstaða einstaklinga sé ekki trygg ef þeir leita til sjálfstæðra aðila á sviði heilbrigðisþjónustu. Réttarstaða þeirra sjúklinga sem hafa leitað til sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðisþjónustu hefur hingað til verið talin trygg.
Í frumvarpinu er auk þess tekið sérstaklega á þessu. Í 40. gr. segir: "Við samningsgerð skal hafa hagsmuni sjúkratryggðra að leiðarljósi. Forsenda samningsgerðar er að fyrir liggi staðfesting landlæknis á því hvort rekstur eða fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu og lög um landlækni."
Og: "Við samningsgerð skal tryggja aðgengi sjúkratryggðra að þeirri heilbrigðisþjónustu sem samið er um óháð efnahag. Jafnframt skal leitast við að tryggja þjónustu við sjúkratryggða hvar á landinu sem þeir eru búsettir og að veitendur þjónustu gæti þess að sjúkratryggðir njóti jafnræðis."
Þá er tekið fram í upphafi frumvarpsins að það sé í samræmi við lög um réttindi sjúklinga, sem gilda auðvitað áfram.
Annars á Ögmundur Jónasson augljóslega málefnalegasta útspilið í þessari umræðu þegar hann photoshoppar mynd af Guðlaugi Þór og Gaddafi og birtir á heimasíðunni sinni. Myndin fylgir pistli þar sem hann líkir þeim tveimur saman...
fimmtudagur, 4. september 2008
Sælkerabúðin ÁTVR
Á vefnum birtast líka fréttir og fyrsta fréttin núna er um að salan hafi aukist fyrstu átta mánuði ársins og að velta á sölu með áfengi sé nú um 11 milljarðar króna.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart. Þegar ríkið einokar sölu á áfengi og er í þokkabót alltaf að þróa og bæta verslanir sínar til að gera þær meira aðlaðandi og meira spennandi fyrir viðskiptavinina, þá er engin furða að sala aukist.
En eru ekki helstu rökin fyrir því að ríkið einoki áfengisverslun einmitt rök um neyslustýringu og lýðheilsu? Eitthvað á þá leið að ef ríkið sjái um áfengisverslun þá sé einhver stjórn á neyslunni? Þetta hefur verið svo í hávegum haft að hógværar breytingartillögur um að færa áfengi í matvöruverslanir eða sérverslanir hafa þótt öfgafullar og ekki náð fram að ganga.
Vandinn er bara sá að ríkið rekur þessa verslun alveg eins og fyrirtæki. Það er með sölunet út um land allt og býr til huggulegt kynningarefni fyrir vörurnar sem það selur.
Ríkisvaldið er því með annarri hendinni að halda myndarlega utan um sölu áfengis, byggja upp sölunet á landsbyggðinni og birtir frétt um söluaukningu á vef einokunarverslunarinnar. Með hinni er haldið úti lýðheilsustefnu, forvörnum og ýmis konar áróðri gegn því að fólk drekki áfengi!
miðvikudagur, 3. september 2008
"Mjög myndug aðgerð"
Steingrímur og þingflokkur VG fluttu t.d. frumvarp í mars þar sem lagt var til að gjaldeyrisvaraforðinn yrði aukinn um 80 milljarða króna. Á þeim tíma hefði slík aukning þýtt að varaforðinn hefði farið upp í 250 milljarða króna, þ.e. helmingurinn af því sem hann er orðinn nú. Í greinargerð með frumvarpinu skrifuðu þingmenn Vinstri grænna meðal annars að ef öll þessi aukning gjaldeyrisvaraforðans og 40 milljarða kr. innlent skuldafjárútboð að auki yrði nýtt til að auka eigið fé Seðlabankans „væri þar orðið um mjög mynduga aðgerð að ræða sem sýndi einbeittan vilja af hálfu stjórnvalda til að treysta undirstöður fjármálastofnana, gjaldmiðilsins og hagkerfisins í heild með öflugum Seðlabanka sem bakhjarli.“
Eftir tíðindi gærdagsins er varaforðinn kominn upp í rúmlega 500 milljarða króna, tvöfalda þá upphæð sem Steingrímur og félagar töldu vera dæmi um mjög mynduga aðgerð á sínum tíma.
Svo því sé til haga haldið þá áttaði Steingrímur sig greinilega á því fljótlega eftir að frumvarpið var lagt fram að talan væri fulllág og tók það fram í ræðu sinni þegar frumvarpið kom til umræðu.
Í ræðunni á flokksráðsþingi VG í Borgarfirði um helgina ætlaði hann greinilega ekki að láta hanka sig á þessu aftur og talaði um að forðinn yrði að vera orðinn 60-75% af landsframleiðslu. Það jafngildir ca. 900-1200 milljörðum króna og því að hugmyndir VG um nægilegan varaforða hafa hækkað um allt 900 milljarða króna á skömmum tíma.
Það er því ekki mjög sannfærandi þegar stjórnarandstaðan talar um það sem stórkostleg mistök að stjórnvöld hafi ekki lúrað á þúsund milljarða gjaldeyrisvaraforða í mörg ár.
þriðjudagur, 2. september 2008
Ný skoðanakönnun og pólitískt Morgunkorn
Ef maður rýnir í könnunina þá virðist Samfylkingin næla þessum prósentustigum frá VG, sem lækkkar úr 22% í 19% milli mánaða og þar hefur trúlega ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur um að setja Bakka í umhverfismat áhrif. Það virðist vera talsvert flæði kjósenda milli VG og Samfylkingarinnar sem ræðst af því hvernig umhverfismálin þróast. Stóra spurningin er samt hvar sá hópur endar þegar álver á Bakka og í Helguvík verða komin í gang.
Hitt stóra málið í ágúst voru meirihlutaskiptin í borginni. Þriðju meirihlutaskiptin á tímabilinu sköpuðu eðlilega ákveðinn pirring hjá borgarbúum sem Samfylkingin naut góðs af dagana eftir meirihlutaskiptin.
En könnunin er tekin yfir allan mánuðinn og sýnir að meirihlutinn er að sækja í sig veðrið. Hann nýtur stuðnings 33% borgarbúa skv. könnuninni en í könnun í ágúst naut meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista stuðnings 16% borgarbúa. Stuðningur við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er líka að aukast og segjast nú um 40% borgarbúa vera ánægðir með hennar störf. Það sýnir mikinn styrk eftir atburði síðustu mánaða, þó þetta sé auðvitað alltof lágt fylgi.
Á landsvísu þarf það ekki að koma á óvart að fylgi Sjálfstæðisflokksins sé lægra en menn eigi að venjast. Það eru erfiðar aðstæður í efnahagslífinu sem kjósendur tengja við flokkinn. Undan því verður ekki skorist. Þegar ástandið batnar mun staða flokksins í könnunum lagast.
Þingið hefst í dag með því að forsætisráðherra flytur þinginu skýrslu um stöðu efnahagsmála. Það var athyglisvert að sjá Morgunkorn Glitnis í dag en þar er gagnrýni stjórnarandstöðunnar og annarra á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar tekin til umfjöllunar. Greining Glitnis telur tal um aðgerðarleysi orðum aukið og segir m.a. að þegar litið sé í baksýnisspegilinn komi á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði þótt ótímabært sé að leggja hendur í skaut.
Hvað sem mönnum finnst um þær aðgerðir sem farið hefur verið út í, þá er varla hægt að tala um aðgerðarleysi þegar litið er yfir listann af því sem gert hefur verið á árinu. Vandinn er vissulega fyrir hendi en stjórnvöld hafa með ýmsu móti auðveldað fyrirtækjum og einstaklingum að sigla í gegnum þetta tímabil.
Flókið tæknidrasl
Sá nýi er með betri rafhlöðu og heilt takkaborð. Hann er hins vegar alveg óþolandi flókinn. Aldrei geta fyrirtæki framleitt svona græjur og haft þetta bara þokkalega einfalt!
Það tók mig til dæmis ca. hálftíma að finna hvar ég gæti skipt út Nokia-hringingunni sem er valin fyrir mann. Á endanum fann ég leiðina. Það er gert með því að fara í Valmynd, svo Verkfæri, svo Stillingar, svo Almennar, svo Sérstillingar, svo Tónar og þá fann ég Hringitónn.
Sem sagt sjö þrepa ferli til að breyta um hringingu. Það væri varla hægt að hafa þetta mikið flóknara.
En svona eru þessar græjur framleiddar. Ég sá í sumar á 60 Minutes innslag um hve miklum vandræðum flókin tæki valda venjulegu fólki. Tækin eru yfirleitt hönnuð og hugsuð af sérfræðingum sem standa í þeirri trú að fólk hafi ekkert skemmtilegra að gera en að dunda sér við að læra á græjurnar sem þeir framleiða.
Í innslaginu var talað við einhvern frústreraðan tækjakaupanda sem hélt því fram að það væri bara fyrir verkfræðiprófessora að skilja svona græjur. Fréttamaðurinn fór þá og heimsótti prófessor í verkfræði í MIT-háskólanum og spurði hann út í hvernig honum gengi að ráða við heimilistækin. Svarið við því var einfalt - prófessorinn sagðist ekkert skilja í svona græjum og hringdi alltaf á viðgerðarmann þegar eitthvað færi úrskeiðis!
mánudagur, 18. ágúst 2008
Hjátrúin er sterk
Þessi stefna mín beið mikið skipbrot í leiknum gegn S-Kóreumönnum, sem ég horfði að sjálfsögðu ekki á og taldi okkar menn nokkuð vísa með sigur. Hið ótrúlega gerðist aftur á móti að við töpuðum. Nú var ég orðinn hálfringlaður og endaði með því að horfa á lokakaflann gegn Dönum - sem endaði með jafntefli!
Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að möguleikar Ísland aukist töluvert ef ég horfi á leikinn við Egypta. Mun að sama skapi að sjálfsögðu taka á mig tapið ef illa fer.
laugardagur, 16. ágúst 2008
Nýr meirihluti og atburðir síðustu daga og mánaða
REI-málið var upphafið að þessari atburðarrás. Þar voru gerð mistök með ónægum undirbúningi og ónægri sátt um jafnstórt og umdeilt mál. Við tók fjögurra flokka meirihluti undir forystu Dags B. Eggertssonar. Það er ekki auðvelt að sameina fjórar mismunandi skoðanir og sá meirihluti einkenndist af því. Flokkarnir fjórir gerðu ekki málefnasamning í þá 100 daga sem þau störfuðu saman og í sjálfu sér kom ekki mikið frá þeim á þessum tíma.
Í janúar sl. tók svo við meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks. Sá meirihluti galt fyrir það frá byrjun hve skammur aðdragandi var að myndun hans. Tilkoma hans hafði ekki legið í loftinu eða verið það sem fólk átti von á. Borgarfulltrúi með lítið fylgi í síðustu kosningum og enn minna í nýlegum könnunum fékk stól borgarstjóra og það var ljóst frá byrjun að það var á brattann að sækja. Atburðirnir í febrúar, þegar þáverandi oddviti sjálfstæðismanna fékk á sig mikla gagnrýni fyrir ummæli sín um ráðgjöf borgarlögmanns auðvelduðu ekki róðurinn. Ennfremur kom fljótlega á daginn að stjórnunarstíll borgarstjóra var með þeim hætti að erfitt var að ná málamiðlunum eða leiða tiltölulega einföld mál til lykta. Í könnun eftir könnun á þessum 7 mánuðum sem meirihlutinn starfaði var stuðningur við borgarstjóra og framboð hans á bilinu 1-3%, sem er auðvitað langt frá því að vera nægilegt fyrir leiðtoga borgarinnar. Þessi staða var auðvitað líka farin að hafa áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Þetta gerði það ekki síst að verkum að kastljós og fókus fjölmiðla beindist fyrst og fremst að persónum og leikendum en ekki þeim mörgu ágætu málum sem unnið hafði verið að, s.s. 16 milljarða afgangi í rekstri borgarinnar og uppbyggingu í öldrunar- og leikskólamálum svo eitthvað sé nefnt.
Eftir að Hanna Birna tók við sem oddviti í borgarstjórnarflokknum má því segja að hún hafi staðið frammi fyrir tveimur erfiðum kostum. Annars vegar að halda áfram í erfiðu samstarfi eða þá að mynda nýjan meirihluta í enn eitt skiptið á kjörtímabilinu. Það verður einnig að taka með inn í myndina að aðrir samstarfskostir í borginni virðast ekki hafa verið í boði, fyrir utan þann kost að Tjarnarkvartettinn kynni að taka saman aftur þótt fulltrúi Framsóknarflokksins hafi ekki haft hug á því þegar á hólminn var komið.
Það er því hvorki blekking né fyrirsláttur þegar talað er um að þessi kostur í samstarfinu hafi verið sá eini sem kom til greina. Við bætist að fyrstu 16 mánuði kjörtímabilsins hafði samstarf þessara tveggja flokka verið farsælt og svo ætti að geta orðið á ný það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Borgin þarf á stöðugleika og festu að halda út kjörtímabilið og Hanna Birna er vel til þess fallin að tryggja það.
fimmtudagur, 14. ágúst 2008
Klækir kvartettsins
Sjálfur er Dagur og Samfylkingin ekki allskostar óklækjótt ef marka má fréttir af gangi mála í dag þar sem sú hugmynd virðist hafa kviknað að láta Ólaf F. segja af sér embætti og ganga úr borgarstjórn til að koma Margréti Sverrisdóttur að og mynda nýjan meirihluta Tjarnarkvartettsins. Oddviti minnihlutans hefur varla verið alsaklaus af því bralli að senda Árna Þór Sigurðsson út á örkina til að hræra í Ólafi F. og tala hann inn á þessa hugmynd. Álit Tjarnarkvartettsins á Ólafi virðist sveiflast nokkuð til og frá því það leið ekki langur tími frá því að þau gerðu honum þetta tilboð þar til að Mörður Árnason var mættur í Ísland í dag og kallaði Ólaf „veikasta hlekkinn“.
Fjölmiðlar munu væntanlega inna Dag eftir svörum um aðkomu hans að þessu máli og hvernig þetta samræmist gagnrýni hans á klækjastjórnmál.
miðvikudagur, 13. ágúst 2008
Af risalántökum
Aðalatriðið varðandi þetta umrædda lán er að þeir sérfræðingar sem eru að kanna þau lánakjör sem íslenska ríkinu stæði til boða telja að þau séu ekki nægjanlega hagstæð. Þetta verður auðvitað að virða enda gengur ekki að hugsa þetta lán þannig að það verði að taka sama hvað tautar og raular.
Þar sem lánið er upp á 500 milljarða króna verður einfaldlega að horfa í lánakjörin. Óhagstæð kjör, þó þau séu bara upp á nokkra punkta, geta kostað mikið. Eins og fram kom í frétt sjónvarpsins á dögunum þá telja t.d. forstjórar Glitnis og Kaupþings mikilvægt að fara varlega í slíka lántöku. Þetta eru ábyrg ummæli af hálfu forstjóra bankanna og jákvæð því það hefur stundum verið skrýtið að hlusta á hina og þessa starfsmenn fjármálafyrirtækjanna fá að tjá sig undir því yfirskini að vera óháðir sérfræðingar um að taka verði stórt lán. Kemur það einhverjum á óvart að bönkum eða fjármálafyrirtækjum lítist vel á að ríkið taki stórt lán og hafi kannski minni áhyggjur af kjörunum?
Gjaldeyrisvaraforðinn hefur nú þegar verið nærri fjórfaldaður á stuttum tíma. Það skiptir máli. En menn hljóta að sjá, sérstaklega þegar bankarnir eru að skila tugmilljarða hagnaði, að hagsmunirnir af því að taka risalán á óhagstæðum kjörum til þess að styrkja forðann enn frekar eru ekki svo miklir að þeir réttlæti að almenningur borgi mismuninn.
þriðjudagur, 5. ágúst 2008
Örvæntingafull leit að blóraböggli
Þetta breytir því ekki heldur að við munum vinna okkur út úr þessu ástandi. Ýmis merki benda nú þegar til þess að sá viðsnúningur sé að hefjast, vöruskiptajöfnuður við útlönd er orðinn jákvæður og uppgjör bankanna voru afar jákvæð í ljósi erfiðra aðstæðna. Það hafa erlendir fjölmiðlar eins og Financial Times pikkað upp. Öll jákvæð umfjöllun á borð við þessa styrkir okkur út á við.
Ytri aðstæður í efnahagslífinu hafa verið erfiðar að undanförnu, með miklum olíuverðs- og hrávöruhækkunum sem fara beint inn í verðlagið hér heima ásamt því að lánamarkaðir hafa verið nánast frosnir. Maður fær samt stundum á tilfinninguna að þeir sem tjái sig um þessi mál hér heima líti nánast algerlega framhjá þessum staðreyndum og vilji heldur að ráðamenn landsins undanfarin 10-15 ár stígi fram og afsaki allt það sem þeir hafa gert.
Það er bara ekkert tilefni til þess!
Auðvitað má benda á eitt og annað sem hefði mátt vera betur útfært eða tímasett en heilt yfir er enginn vafi á því að íslensk stjórnvöld hafa verið að leika réttu leikina undanfarin ár og kjörtímabil. Lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki, hagfelld umhverfi fyrir fyrirtæki og atvinnulíf og traust öryggisnet í samfélaginu hefur skilað okkur meiri lífsgæðum en flestar aðrar þjóðir búa við. Kaupmátturinn sem mikið er rætt um jókst um 60-70% frá 1995-2006. Að greiða upp skuldir ríkissjóðs og búa við eitt öflugasta og best fjármagnaðasta lífeyrissjóðakerfi í heimi er heldur ekki neitt sem menn þurfa að afsaka eða skammast sín fyrir.
En krafa um afsökunarbeiðnir og skrif um mistök eru auðvitað áhugaverðari kenningar en skrif um óhagstæðar ytri aðstæður og góðan árangur undanfarinna ára....
föstudagur, 1. ágúst 2008
Samhengi hlutanna
Það er auðvitað rétt að verðbólgan er okkur erfið um þessar mundir, hún hækkar allar skuldir og þyngir róðurinn. En menn verða að setja hlutina í samhengi - við göngum nú í gegnum erfitt skeið eftir 12 ára tímabil nær samfelldrar kaupmáttaraukningar og hagvaxtar. Þetta eru tímabundnir erfiðleikar sem koma að miklum hluta til vegna aðstæðna úti í heimi, s.s mikilla hækkana á olíu- og hrávöruverði og erfiða aðstæðna á fjármála- og lánamörkuðum.
Hvað bankana varðar þá er aðalatriðið einfaldlega að uppgjör sem þessi sýna að staða þeirra er góð og þeir virðast ætla að sigla í gegnum þetta tímabil. Tal um að ríkið þurfi að bjarga bönkunum virkar undarlega á mann þegar afkoman er jafngóð og raun ber vitni. Bankarnir sýna jákvæða afkomu og hafa ekki þurft að fara út í umfangsmiklar afskriftir eins og sum fjármálafyrirtæki úti í heimi vegna undirmálslánanna. Það er mikilvægt því það yrði töluvert högg ef einhver þeirra færi á hliðina.
Ekki alsvart
Þá komu fréttir um það í gær að nú sé viðskiptajöfnuður við útlönd orðinn jákvæður, sem hefur ekki gerst lengi. Að vísu náðist jákvæður jöfnuður í nóvember í fyrra en þar áður gerðist þetta árið 2004. Þetta styrkir gengið og gæti dregið úr verðbólgu.
Hægt og bítandi er hagkerfið að fara í gegnum viðsnúning og ná nýju jafnvægi.
Meðalhóf og deildar meiningar
Þessi úrskurður sýnir enn og aftur að skoðanir eru skiptar innan Samfylkingarinnar um umhverfismálin og t.d. er nálgun iðnaðarráðuneytisins önnur en umhverfisráðuneytisins í þessu máli. Samfylkingin telur sig eiga mikið undir því að halda og ná í atkvæði úr hópum umhverfisverndarsinna og vill berjast við VG um þann hóp. Svona úrskurður eru þó engir stórsigrar út frá þeim mælikvarða - þetta þýðir að umhverfismatsferlið tekur lengri tíma en ella en er alls ekki neitt úrslitaatriði fyrir framkvæmdina sjálfa.
Meðalhófið er aðalatriðið í þessu máli. Ráðuneytið hafnar í raun þeirri leið sem Skipulagsstofnun, sveitarfélögin og aðrir hagsmunaaðilar í málinu voru ásátt um að fara, þ.e. að Skipulagsstofnun haldi utan um umhverfismat fyrir alla þætti þeirra framkvæmda sem eru á döfinni í tengslum við álver á Bakka og öðlist þannig nauðsynlega heildarsýn á málið. Fram kemur af hálfu Skipulagsstofnunar að fullur vilji til samstarfs sé fyrir hendi hjá öllum aðilum málsins. Þetta myndi þýða að formlega yrði ekki farið í heildarmat á framkvæmdunum en stofnunin myndi ná nægilegri yfirsýn á alla þætti málsins.
Ráðuneytið ákveður engu að síður að taka undir mat Umhverfisstofnunar um að réttara sé að setja þetta í heildarmat, m.a. með þeim rökum að það séu ekki lagaheimildir fyrir þeirri leið sem Skipulagsstofnun ætli að fara.
Þau rök sem ráðherra hefur fært fram í fjölmiðlum um að meðalhófsreglan sé virt því málið sé svo skammt á veg komið verða að skoðast í því ljósi að meðalhófsreglan byggir á því að stjórnvöld noti alltaf vægasta úrræði sem völ er á. Ef Skipulagsstofnun treystir sér til að öðlast heildarsýn á þetta mál í samstarfi við alla aðila þá er það óneitanlega vægara úrræði.
þriðjudagur, 29. júlí 2008
Pópúlismi í talsmanninum
Allir lánasamningar verða að taka mið af verðbólguþróun. Verðtryggð lán hafa lægri og yfirleitt fasta vexti því verðtryggingin veitir lántakanum tryggingu fyrir verðbólguhækkunum. Óverðtryggð lán hafa aftur á móti hærri og breytilega vexti til þess að koma til móts verðbólguna.
Það sem meira er þá hafa rannsóknir fræðimanna á þessu sviði sýnt að verðtryggð lán bera lægri raunvexti heldur en óverðtryggð lán. Hagur neytenda af því að afnema verðtryggingu, sem væri væntanlega gert með því að banna hana með lögum, er því alls ekki augljós. Þessu þarf Gísli að velta fyrir sér sem hagsmunaaðili neytenda. Hann gæti líka glöggvað sig á málinu með því að lesa greinar sem hafa verið skrifaðar um þessi mál á Deigluna (hér og hér). Svo tók Vefritið sig til fyrir nokkru síðan og birti stórgóðan greinaflokk um verðtryggingu.
Össur gagnrýnir eigin aðferðir
Össur Skarphéðinsson skrifar um stöðu mála í borginni og líkir stöðu Ólafs F. Magnússonar við það þegar Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra. Hann segir að
á sínum tíma hafi það verið „í andstöðu við lýðræðislega tilfinningu þjóðarinnar þegar Halldór Ásgrímsson var með hrossakaupum leiddur til æðstu valda í ríkisstjórninni. Hann var forystumaður dvínandi flokks, og naut í könnunum ekki nema fylgi örlítils hluta þjóðarinnar.“
Er þetta ekki skrifað af sama manni og var formaður Samfylkingarinnar árið 2003 og bauð Halldóri Ásgrímssyni að gerast forsætisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins að loknum kosningum?
sunnudagur, 27. júlí 2008
Orðskrípið matvælaöryggi
Svo má spyrja sig að því hvort svona öryggissjónarmið eigi við á fleiri sviðum. Hvað með t.d. samgönguöryggi? Ættum við ekki samkvæmt þessum rökum að framleiða bifreiðar og eldsneyti hér heima til að vera alveg örugg ef eitthvað kæmi upp á? Við erum í dag algerlega háð útlendingum á þessu sviði varðandi innflutning á bílum og eldsneyti. Að vísu eru engar forsendur fyrir því að slík framleiðsla stæði undir sér hér á landi en það hlyti að vera hægt að brúa það bil með tollum og innlendum stuðningi.
Það er löngu orðið tímabært að stokka upp styrkjakerfið í landbúnaði. Ef það næst lending í Doha-viðræðunum, eins og einhverjar vísbendingar eru um núna, þá er það gott mál. Þrátt fyrir að það sé augljóst að gera eigi breytingar á þessu kerfi og mörgum þætti eðlilegast að við Íslendingar gerðum slíkt einhliða, þá er trúlega besta leiðin til að ná sátt um svona breytingar að gera þær á heimsvísu þannig að öll lönd taki á sig ákveðnar byrðar og uppskeri líka á móti í lægra matvælaverði.
laugardagur, 26. júlí 2008
Samsæriskenningar Merrill Lynch
Thomas þessi telur að íslensk stjórnvöld hafi ekkert gert fyrir bankana og dregur þessar vafasömu ályktanir af því. Það er auðvitað ekki rétt að ekkert hafi verið gert, því nú þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða. En talsmenn Merrill Lynch eru að hugsa á allt öðrum nótum og í öðrum stærðum. Í vor lagði þetta fyrirtæki til að ríkið myndi "bjarga" málunum með því að kaupa skuldabréf bankanna á eftirmarkaði næstu þrjú árin, en sú aðgerð var verðlögð á nærri því 3000 milljarða króna.
Aðrir setja eðlilega spurningamerki við þann pilsfaldakapítalisma að ríkið (= íslenskir skattgreiðendur) eigi að bjarga einkafyrirtækjum, sem undanfarin ár hafa tekið áhættu í sínum rekstri og skilað miklum hagnaði.
Enn aðrir telja slík viðhorf aftur á móti vera til marks um öfgahægrikreddur og ofurtrú á markaðinn. Það er vandlifað!
Þrátt fyrir þetta verður ríkisstjórnin að vega og meta hvað er í boði og gera það sem hægt er. Slíkar aðgerðir verður alltaf hægt að gagnrýna fyrir að vera of mikið inngrip eða að ganga of skammt. En það er í öllu falli út í bláinn að halda því fram eins og greinandi Merrill Lynch gerir að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt og sé í þokkabót með einhvers konar plott í gangi um að þjóðnýta bankana.
Á vegum stjórnvalda hefur margt verið gert á stuttum tíma til að styrkja stöðuna. Samningar voru gerðir við norræna seðlabanka um lánalínur upp á um 175 milljarða. Þá kynnti ríkisstjórnin aðgerðir á lána-, gjaldeyris- og fasteignamarkaði í júní sem höfðu meðal annars þann tilgang að tryggja að fasteignamarkaðurinn myndi ekki fara í frost. Nú hefur komið fram af hálfu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að þessar aðgerðir samhliða niðurfellingu stimpilgjalda af lánum út af kaupum á fyrstu íbúð hafi haft jákvæð áhrif og markaðurinn tekið eitthvað við sér. Það má heldur ekki gleyma því að skattar á fyrirtæki hafa lækkað úr 18% í 15%. En auðvitað er róðurinn þungur hér á landi eins og annarrs staðar. Íslenskum fyrirtækjum er þó vel treystandi til að sigla í gegnum þetta tímabil og gera réttar ráðstafanir í sínum rekstri.
sunnudagur, 20. júlí 2008
Flensa um mitt sumar
Eftir að hafa legið í bælinu í þrjá daga (og er enn frekar slappur) fór ég út áðan út á Eiðistorg til að kaupa í kvöldmatinn. Ákvað að klæða mig vel, fór í frakka og var með húfu, til að mér yrði örugglega ekki kalt. Þetta var hrikalegt. Ég sá ekkert nema fólk í stuttum sumarbuxum og söndulum með peysurnar yfir axlirnar á leið í ríkið til að kaupa sér vínflösku fyrir kvöldið. Allir svo hamingjusamir. Ég ímyndaði mér að þetta fólk hlyti að vera á leiðinni að grilla með vinum sínum, sennilega á einhverri strönd.
Ég var svo mikið út úr kú miðað við hina að öryggisvörðurinn við vínbúðina var farinn að gefa mér hornauga. Órakaður maður í svörtum frakka og með dökka húfu ofan í augu á heitasta degi sumarins - ég skildi hann vel.
laugardagur, 19. júlí 2008
Gamlar skoðanir eru ekki endilega slæmar
Þetta Eyjublogg verður þriðja stoppið á frekar stuttri bloggævi Ég var fyrst á Blogspot og svo á Moggablogginu en nú er ég kominn hingað.
Stundum hef ég velt því fyrir mér hvað verði um allt þetta flóð af ritmáli sem sett er á Netið. Væntanlega er þetta allt saman til í einhverjum gagnagrunnum og risatölvum en fæstir hugsa um að flokka eða halda upp á eigin skrif. Fólk skiptir um bloggsíður reglulega og margt af því sem skrifað hefur verið hverfur yfir einhvers konar rafræna móðu.
Einstaka menn halda þó nákvæmar skrár yfir það sem þeir hafa sagt á prenti eða vefnum langt aftur. Dagbækur, greinar og ræður Björns Bjarnasonar eru aðgengilegar á vefnum aftur til 1995 og Jónas Kristjánsson, ritstjóri, hefur sett inn allt það sem hann hefur skrifað, þ.e. leiðara, gagnrýni, pistla og fleira, allt aftur til ársins 1973. Jónas bloggar af mikilli elju í dag og lýsti því t.d. yfir um daginn að hann teldi það heilbrigt að skipta um skoðun á nokkurra ára fresti. Því er stundum lýst sem mikilli höfuðsynd hér á landi í umræðum og skrifum að hafa skipt um skoðun. En það gerist auðvitað stundum. Kannski væri réttara að lýsa þessu þannig að með tímanum fái önnur sjónarmið meira vægi, þó gömlu sjónarmiðin séu ekki endilega röng.Ég fann á vefnum hjá Jónasi leiðara sem hann skrifaði í DV um þær mundir sem Ísland var að velta fyrir sér EES-samningnum, í október 1991:
„Við höfum gerzt félagar í nýjum og stærri fríverzlunarsamtökum, en ekki gerzt limir í efnahagsbandalagi. Sá er munurinn á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu. Það er mikill munur á að vera félagi í fjölþjóðasamtökum eða limur í fjölþjóðasamfélagi.“
Í desember sama ár skrifar hann:
„Við erum fámennari þjóð og getum ekki leyft okkur að ganga eins langt í afsali fullveldis. Okkar fullveldi er ekki sterkara en svo, að við þurfum að vaka yfir því nótt og dag. Evrópubandalagið hefur marga kosti. Það hefur forustu í ýmissi lagasetningu, til dæmis í umhverfismálum. Það er að koma á fót Evrópumynt, sem við ættum að taka upp í stað krónunnar. Það er þó fyrst og fremst frjáls markaður, sem við viljum vera í tengslum við.“
Aftur á móti skrifar Jónas fyrir nokkrum dögum, í júlí 2008, að aðild að Evrópusambandinu sé stóri draumurinn.
„Þá verðum við komin með lága vexti, traustan gjaldmiðil og nánast enga verðbólgu.“
Ég er sammála báðum. Þetta eru annars vegar hugmyndir um að við Íslendingar verðum að gæta þess að hverfa ekki inn í evrópska stjórnkerfið og hins vegar krafa um aðgang að stærra myntsvæði. Þetta þarf ekki að útiloka hvort annað. Við gætum farið fram á samstarf við ESB um gjaldmiðilinn, sem gæti t.d. falist í að tengja gengi krónunnar við evruna, ef menn vilja gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi peningamála.
Sumir halda því fram að svona samkomulag gæti aldrei orðið og að engum detti í hug að reyna að byggja á EES-samningnum. Atli Harðarson vísar á bloggsíðu sinni í athyglisverða könnun frá Bretlandi þar sem einmitt hið gagnstæða kemur fram, þ.e. að meirihluti Breta hafi áhuga á Evrópusambandi sem byggðist fyrst og fremst á viðskiptum og samvinnu. Það er einmitt grundvallarhugsunin í EES.
föstudagur, 18. júlí 2008
ESB-lýðræðið og gjaldmiðillinn
Þetta þarf kannski ekki að koma alveg á óvart í ljósi þess sem á undan er gengið. Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins í kosningu árið 2005. ESB-forystan ákvað þá að setja stjórnarskrána í nýjan búning og kalla hana Lissabon-sáttmálann. Írar felldu sáttmálann en það á greinilega að koma honum í gegn sama hvað tautar og raular. Þetta er hið lýðræðislega Evrópusamband.
Það er mikil umræða hér heima um Evrópu og aðild Íslands. Hún byggir þó nánast eingöngu á óskum um breytingar í gjaldmiðlamálum og tengist þeirri stöðu sem er uppi í efnahagsmálunum. Nú nýlega hafa komið fram raunhæfar og skynsamar lausnir um gjaldmiðilinn, sem t.d. Björn Bjarnason, Þórlindur Kjartansson og Stefán Már Stefánsson, prófessor, hafa talað fyrir. Með þeim er bætt við nýjum valkosti ef farið verður út í að gera breytingar á gjaldmiðlamálum hér á landi. Þær ganga út á aukið samstarf við Evrópusambandið með því að tengja gengi krónunnar við gengi evru, með aðild að ERM II-myntkerfinu.
Þessar tillögur hafa víða fengið heldur harkaleg viðbrögð, t.d. hefur verið talað um villuljós og reyksprengjur. Mér sýnist þó að viðbrögðin einkennist af þeim grundvallarmisskilningi að verið sé að tala um einhliða upptöku evru. Það er ekki rétt með farið heldur er verið að tala um tengingu krónunnar við gengi evrunnar. Á þessu er talsverður munur. Tenging við evruna og samningur um stuðning evrópska Seðlabankans felur í sér að við höldum krónunni sem gjaldmiðli. Því er engin einhliða upptaka eða aukaaðild að evrunni í spilunum. Þetta væri markviss lausn. Hún er ólík því að breyta um gjaldmiðil með fullri aðild að ESB. Spurningin um aðild yrði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu sem gæti vel endað þannig að aðild yrði felld. Þá yrðum við aftur á byrjunarreit nema að nokkur ár væru liðin.